Sönghátíð í Hafnarborg 18.6. - 2.7.2023
Kæru gestir.
Verið velkomin á Sönghátíð í Hafnarborg 14.6. – 29.6.2025!
Sönghátíð í Hafnarborg hefur það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri. Hátíðin býður upp á tónleika með einsöngvurum, kórum, kammersönghópum og hljóðfæraleikurum, fjölskyldutónleika, master class fyrir unga söngvara og söngnemendur, söngsmiðju fyrir börn og ókeypis tónleika fyrir aldraða og fólk með heilabilun á dagheimilum.
Sönghátíð í Hafnarborg var haldin í fyrsta sinn árið 2017 og hefur verið haldin árlega síðan, alls átta sumur í röð. Næsta hátíð fer fram 14. – 29. júní 2025 og er undirbúningur í fullum gangi.
Sönghátíð í Hafnarborg er sjálfstæð tónlistarhátíð sem haldin er í samvinnu við Hafnarborg. Hátíðin fékk Íslensku tónlistarverðlaunin sem Hátíð ársins fyrir árið 2020. Sönghátíð í Hafnarborg hefur hlotið mikla athygli í fjölmiðlum, góða aðsókn á tónleika og námskeið og mjög jákvæða umfjöllun gagnrýnenda. Upptökur af Sönghátíð eru iðulega spilaðar í Ríkisútvarpinu.
Hátíðin býður upp á söngtónleika með einsöngvurum í fremstu röð, kórum, kammersönghópum og hljóðfæraleikurum, sem leika á ný og gömul hljóðfæri. Börnum býðst að taka þátt í
1) Söngsmiðju í tveimur aldurshópum, 6-9 ára og 10-12 ára, sem lýkur með þátttöku þeirra í opinberum tónleikum
2) Tónlistarsmiðju fyrir 3-5 ára með foreldrum
3) Krílasöng fyrir 6-18 mánaða með foreldrum.
Hátíðin leggur áherslu á mikilvægi þess að fá fólk til að taka þátt bæði með því að njóta söng annarra og að syngja sjálft t.d. í fjöldasöng á tónleikum.
Einn virtasti og reynslumesti söngvari Íslands, Kristinn Sigmundsson, kennir ungum söngvurum og langt komnum nemendum á master class námskeiði, sem lýkur með opinberum tónleikum nemendanna. Tónleikarnir eru teknir upp með hljóð og mynd í góðum gæðum svo nemendurnir geti nýtt sér upptökurnar sér til framdráttar og til að læra af þeim.
Frá byrjun hefur annar listrænna stjórnenda hátíðarinnar, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, tekið vinsæl myndbandsviðtöl við virta söngvara um söngtækni og birt á YouTube stöð Sönghátíðar í Hafnarborg. Flest viðtölin eru á íslensku, sum með enskum texta og sum á ensku. Þannig vekur hátíðin alþjóðlega athygli á söngvurum og þekkingu þeirra, sem söngnemendur og söngvarar hvar sem er geta lært af.
Markmið Sönghátíðar í Hafnarborg eru:
1) Að koma sönglist, söngvurum, söngtækni og söngbókmenntum, íslenskum sem erlendum, á framfæri með tónleikum, námskeiðum og myndböndum.
2) Að bjóða upp á söngtónleika með einsöngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum.
3) Að hvetja fólk til að njóta söngtónlistar bæði sem hlustendur og gerendur.
4) Að virkja börn í tónlistarsköpun og tónlistariðkun.
5) Að byggja upp nýjan hlustendahóp sem saman stendur af börnunum í Söngsmiðjunni, fjölskyldum þeirra og vinum sem koma að hlusta á þau, en myndu annars kannski ekki sækja tónleika.
6) Að hafa jákvæð áhrif á samfélagið með því að búa til samfélagslegan vettvang fyrir fólk til að hlusta saman á tónlist, hittast, tala saman og njóta myndlistarsýninga Hafnarborgar í leiðinni.
7) Að færa tónlist til þeirra sem ekki eiga alltaf kost á því að fara á tónleika, með tónleikum á heimilum fyrir fólk með heilabilun.
8) Að vera atvinnuskapandi fyrir söngvara, kóra og hljóðfæraleikara.
9) Að auka við menningarframboð yfir sumartímann og nota þann frábæra hljóm og flygil sem Hafnarborg hefur upp á að bjóða sem tónleikasalur.
10) Að gefa ungum söngvurum og nemendum tækifæri til að læra yfir sumartímann og koma sér á framfæri.
Sönghátíð í Hafnarborg er sjálfstæð hátíð, sem haldin er nú níunda árið í röð í gjöfulu samstarfi við Hafnarborg.
Góða skemmtun!
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui,
stofnendur og stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg.
Stjórn Sönghátíðar í Hafnarborg:
Signý Pálsdóttir, formaður stjórnar
Árni Möller, gjaldkeri
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui, meðstjórnendur